top of page

Galdurinn í þrykkinu

Í listasögunni eru mörg dæmi þess að myndlistarmenn hafi unnið jafnhliða með grafík og málverk, má nefna einn af mörgum frammúrskarandi listamönnum, en það er norski listamaðurinn Edvard Munch (1863–1944). Hann er gott dæmi um myndlistarmann sem notaði grafíkina til að kanna möguleika myndlistar til tjáningar sterkra tilfinninga í mynd (expressíónistar), svo sem ástar, afbrýðissemi, dauða, skelfingar o.s.frv..

 

Í þrykkinu, í aðferðinni að rista, skera, eða marka með öðrum hætti spor í flöt sem má þrykkja af á pappír, er fólgið ferli sem einungis er mögulegt að ná með þessari aðferð grafíklistarinnar. Þegar tekist er á við flötinn, tréð, koparinn, lithósteininn, er myndin misvel sýnileg á meðan á vinnslunni stendur. Myndin er spegilvent og því er lokaniðurstaðan ekki jafn augljós og í málverki. Þegar liturinn er borinn á myndflötinn, tréð, koparinn eða lithósteininn kemur myndin að nokkru fram, en þegar þrykkt er af mótinu á pappírinn snýst myndin við. Þannig fæst niðurstaðan af löngu ferli þar sem höfundurinn hefur aðeins haft óljósa mynd í höfðinu um það, hvernig myndin, sem er rist, skorin eða teiknuð á þessa ólíku efnisfleti, muni að lokum líta út. Svarið við spurningum höfundarins fæst loks þegar örkinni er lyft af prentfletinum, mótinu. Því er þetta augnablik, þegar pappírsörkinni er lyft töfrum líkast. Sú spenna, sem hleðst upp í vinnuferlinu, handverkinu að móta myndflötinn með nál, hníf eða lithókrít, leysist ekki úr læðingi fyrr en myndin er þrykkt. Væntanlega er þessi einstaka listræna upplifun það, sem svo margir listamenn sækjast eftir. En auk þessa hefur grafíkin einstaka möguleika til hverskonar myndrænnar túlkunar og því er það ekki undarlegt, að svo margir listamenn, sem voru expressíónistar, unnu með þessa grafísku miðla. Málverkið og teikningin býr einnig yfir þessum eiginleika, en sérstaða grafíkurinnar er, að ristan og skurðurinn býr yfir eiginleikum, sem eru sérstakir innan myndlistarinnar.

 

Það var einmitt eitt einkenni þessara grafíklistamanna að leitast við að draga fram með aðferðum myndlistarinnar sterkar og andstæðar tilfinningar. Litur, form og línur eru notuð með þeim hætti, að hjá áhorfandanum verða til sterkar tilfinningar; tilfinningar, sem listamaðurinn vill tjá okkur. Myndir Van Goghs, Emils Noldes og Edvards Munchs, svo nokkrir expressíónistar séu nefndir, eru gott dæmi um þetta. En það er afar auðvelt eftir að myndmótið hefur verið gert að þrykkja af því í mismunandi litum. Línan, sem er skorin í tré, er einstök hvað varðar skerpu og hana má þrykkja þannig, að áhorfandinn skynji áherslurnar, sem þessi tegund línu getur tjáð. Þessi umrædda grein myndlistar hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í allri myndsköpun. Hún þarf að vera marksækinn hluti náms í öllum listaskólum, svo að nemendur geti innan hennar dýpkað skilning sinn og færni í þessum einstaka miðli myndlistarinnar.

 

Íslensk grafík, sögustiklur

Forsaga

Prentun Guðbrandsbiblíu á seinni hluta 16. aldar markaði stórt skref í prentlistinni hér á landi, en hún var prentuð með þeirri tækni, sem þá var kunn í Evrópu og er kennd við Gutenberg. Aðferðin byggir á lausaletri, það er hver stafur er steyptur í blý og þannig hver síða sett með þessu letri. Ferlið síðan endurtekið fyrir næstu síðu, sama letri raðað á ný, hver stafur í orð og orð í línur og lína eftir línu þar til að komin var heil síða. Þannig þurfti ekki að skera út hverja síðu fyrir sig; allt letrið var sett upp staf fyrir staf. Þessi tækni er nefnd hæðarprent; liturinn er borinn á yfirborð letursins og þrykkt yfir á pappírsörkina. Mótið er spegilvent en verður réttvent á pappírsörkinni. Gutenbergsbiblían var prentuð með þessari aðferð um miðja 15. öld. En fyrir þann tíma voru bækur handskrifaðar og einnig var eitthvað um það að letur væri skorið út í tré og prentað. Lausaleturstæknin er því augljós tímasparnaður og var forsendan fyrir því að fjölfalda bækur með auðveldari hætti en að skera hverja síðu fyrir sig í trémót eða handskrifa hvert eintak. Þessi prentaðferð samsvarar þeirri grafísku aðferð, sem við nefnum tréristur, dúkristur og hverskonar reliefprent og voru myndlistarmenn snemma á ferðinni að nýta þessa þekkingu til að fjölfalda myndir.

 

Til hvers að leita svo langt aftur í söguna til að varpa ljósi á þróun grafíklistar á Íslandi og blanda saman prentlistinni og grafíklistinni? Svarið er, að sterk tengsl eru á milli þessarar tveggja svartlistagreina. Í raun má leita enn lengra aftur í tímann, því það hefur verið manninum þörf að móta og rista myndir í ýmis efni, sem voru tiltæk á hverjum tíma. Það er þannig á fimmtu öld sem elstu dæmi finnst um það, að maðurinn hafi þrykkt myndir af tréplötu, en það var í Japan (Bragi Ásgeirsson, 1986).

 

Ef sú tilgáta er rétt, að Guðbrandur hafi sjálfur skorið út í tré myndmót af skrautlegum hástöfum og bókarhnútum í Guðbrandsbiblíu ásamt útskorinni, sjálfsmynd sem honum eru eignuð (Sveinbjörn Pálsson, 2008), þá er vissulega hægt að nefna þetta sem fyrstu heimildir hérlendis um grafískt höfundarverk sem er þá frá því um miðja 16. öld.

 

Að fjölfalda texta og sú þróun að dreifa upplýsingum með aðferðum prenttækninnar svo fleiri en fámennur hópur embættismanna megi njóta, hefur áhrif á listamenn; þeir greina nýja möguleika til fjölföldunar á myndum. Albert Dürer (1471 -1528) er gott dæmi um það, en myndskreytingar og fjölföldun sjálfstæðra grafíkverka i djúpþrykk og hæðarprent, koparstungur og tréristur, voru ríkur þáttur í list hans.

 

Stofnun félags um grafík

Nokkrir myndlistarmenn, sem höfðu kynnst eða unnið myndir í grafík, komu saman ásamt einum prentara, letursérfræðingi og bókarhönnuði á árinu 1954 til að stofna félag íslenskra grafíklistamanna. Þetta voru myndlistarmennirnir Jóhannes Jóhannesson, Jón Engilberts, Jón Þorleifsson, Kjartan Guðjónsson, Benedikt Gunnarsson, Veturliði Gunnarsson, Hafsteinn Guðmundsson og Þorgeir Ólafsson. Þrátt fyrir framsýni og góðan hug náði þetta félag ekki að starfa, en þarna var samt sáð fræjum. Það er svo 15 árum síðar sem myndlistarmaðurinn Einar Hákonarson kemur heim frá námi við Listaháskólann Valand í Gautaborg en við þann skóla var öflug grafíkdeild, sem tvímælalaust hefur verið Einari hvatning til góðra verka fyrir grafíkina. Hann varð einn aðalhvatamaðurinn að stofnun grafíkfélags 1969 og var gert sérstakt merki fyrir hið nýja félag. Félagið fékk síðan það nafn sem enn er, Íslensk Grafík, og nýtt merki, sem Jón Engilberts teiknað. Í dag er það Íslensk grafík, sem heldur uppi merkinu með öflugu félagstarfi, rekstri á grafíkverkstæði og sýningarsal í Reykjavík.

 

Tengsl myndlistar og prentverks

Það má greina tengingu milli prentverks og myndlistarmanna þar sem prentarinn Hafsteinn Guðjónsson var á meðal stofnenda félagsins. Tengsl prentverksins og myndlistarinnar eiga sér marga snertifleti og má nefna allnokkra íslenska myndlistamenn sem unnu við prentverk; Þorstein Guðmundsson (1817-1864), Arngrím Gíslason (1829–1887),  Þórarin B. Þorláksson (1867-1924), Gunnar S. Þorleifsson (1922-), Eirík Smith (1925-), Jón Gunnarsson (1925-), Guðmund Ármann Sigurjónsson (1944-) og Gunnlaug Stefán Gíslason (1944-) (Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994).

 

Kennsla  í grafík

Frumkvöðlar í grafík á Íslandi eru Guðmundur Einarsson frá Miðfelli, Jón Engilberts og síðar Bragi Ásgeirsson. Þessir listamenn lögðu grunn hver með sínum hætti, Guðmundur með ætingum, Jón með tréristum og Bragi með steinþrykki. Guðmundur flutti heim með sér árið 1925 litla djúpþrykkspressu frá Þýskalandi, þar sem hann hafði verið í myndlistarnámi. Jón var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun félags grafíklistamanna og var afkastamikill í gerð grafíkverka á árunum 1930-40; verk hans eru tré- og dúkristur með sterku samfélagslegs ívafi (Greta Engilberts, 2015).

 

Það var undir handleiðslu Braga Ásgeirssonar sem nemendur í Handíðaskólanum tóku að fá kennslu í steinþrykki á árunum 1956-58 (Aðalsteinn Ingólfsson, 1993). Það var svo í Myndlista– og handíðaskólanum, MHÍ, sem regluleg kennsla í grafík fór fram og var Bragi Ásgeirsson eini kennarinn. Þarna var nokkurs konar opið verkstæði, þar sem nemendur skólans í fornámi, málunardeild og kennaradeild, gátu tekist á við steinþrykk og tré- og og dúkristu. Þetta var á sjöunda áratugnum. Þá hófu nám í grafík nokkrir listnemar, sem síðar áttu eftir að láta að sér kveða í þróun og viðgangi grafíklistarinnar á Íslandi. Það var svo nokkrum árum síðar sem Einar Hákonarson kemur með djúpþrykkspressu og hefst þá kennsla í kopargrafík. Þannig má segja að kennsla hefjist í listgrafík, í steinþrykki um 1956, í djúpþrykki á seinnihluta sjötta áratugarins og síðar, á seinni hluta sjöunda áratugarins bætist við sáldþrykk, sem Þórður Hall stóð að. Nemendur í fornámi, kennaradeild og málunardeild Myndlista- og handíðaskólans höfðu þá tækifæri til að vinna í steinþrykk, háþrykk, tré- og dúkristur djúpþrykk, kopargrafík og loks sáldþrykk. Grafíkdeild Myndlistar- og handíðaskólann varð síðan sérdeild innan skólans og nemendur útskrifuðust með fjögurra ára nám að baki og þar af tvö ár í grafík; eitt ár í fornám og þrjú ár í sérdeild, svo sem grafíkdeild. Lokapróf úr MHÍ jafngilti BA-nám. Árið 2000 tekur Listaháskóli Íslands (LHÍ) til starfa og byggir á arfi Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og var grafíkdeildin þá lögð niður sem sérdeild, en verkstæðinu var haldið og geta nemendur LHÍ notað verkstæðið og hafa aðgang að fagmanni þar.

 

Grafík er kennd á námskeiðum í Myndlistaskóla Reykjavíkur og einnig er hún kennd á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri og er valáfangi. Í dag útskrifast þó engir nemendur á Íslandi í myndlist með menntunargráðu í listgrafík og eru horfur því ekki góðar hvað viðkemur þessari mikilvægu grein myndlistar hér á landi.

 

Faglegar kröfur

Fagfélag grafíklistamanna á Íslandi, Íslensk grafík, gerir eðlilega faglegar kröfur til sinna félagsmanna og á heimasíðu þess stendur eftirfarandi:

 

Þeir einir eru meðlimir sem lokið hafa minnst 4ra ára námi frá viðurkenndum listaskóla og hafa starfað að listsköpun í minnst 2 ár.

Það gefur auga leið, að það verður mjög hæg endurnýjun í þessu ágæta fagfélagi myndlistar, þar sem engin listamaður útskrifast lengur úr íslenskum listaskóla að loknu samfelldu námi í grafík. Íslensk grafík rekur metnaðarfullt verkstæði með möguleikum á að vinna með fjölbreyttar grafískar aðferðir. Þannig berst félagið eftir mætti við að viðhalda faglegum metnaði, kynningu og verkþekkingu á listgrafík með því verkstæðisrekstri sínum og einnig sýningarsal og þar að auki með samstarfi við erlenda grafíklistamenn, félög og verkstæði.

 

Lokaorð

Grafíklist á Íslandi á sér vissulega forsögu aftur á 16. öld, en í raun, sem mikilvægur þáttur íslenskrar myndlistar, er hún ekki virk fyrr en eftir miðja 19. öld. Kennsla í grafík hefst á svipuðum tíma, fyrst sem námskeið, en fljótlega eftir miðjan sjöunda tug 19. aldar er grafík kennd í sérstakri deild við MHÍ. Þannig er málum háttað fram að stofnun Listaháskóla Íslands, LHÍ árið 2000. Sérstök tveggja ára deild er ekki lengur til sem slík í LHÍ, einungis verkstæði með einum grafíkfagmanni. Fagfélag grafíklistamanna var fyrst stofnað 1954, en það liðu um tuttugu ár þar til fagfélag varð til og nú starfar Íslensk Grafík farsællega. Spurningin er, hvaða áhrif það mun hafa á félagið og framtíð grafíklistarinnar í íslenskri myndlist, þegar ekki eru útskrifaðir listamenn með sérþekkingu á grafík úr nokkrum skóla á Íslandi, heldur listgreinin einungis kennd á námskeiðum og í styttri önnum.

 

Það virðist vera full ástæða til þess að hafa áhyggjur vegna þessarar stöðu og þess, að grafíkin er afar veigamikill þáttur í fjölbreyttri flóru myndlistarinnar.

 

 

Heimildir:

Aðalsteinn Ingólfsson (1993) Líf í grafík, Listasafn Íslands 1993

Bragi Ásgeirsson (1986). Svartlist. október, 1986

Greta Engilberts (2015) Sýningarskrá, Grafíksýning, Jón Engilberts, í Bergi Dalvík 2015

Heimasíða Íslenskrar Grafíkur (9.8. 15.)

Ingi Rúnar Eðvarðsson (1994) Prent er mennt Safn til Iðnsögu Íslendinga VIII. bindi, Ritstjórn Jón Böðvarsson. Hið Íslenska bókmenntafélag  Reykjavík 1994.

Sveinbjörn Pálsson (2008). Gotneskt letur og Guðbrandsbiblía BA ritgerð við LÍH, Skemman, 9. 6. 15

Þorgeir Ólafsson (1987), Punktar úr sögu Íslenskrar Grafíklistar, Grafík Atlantica, sýningarskrá, Kjarvalsstaðir 1987

 

Samtöl við: Einar Hákonarson, Richard Valtingojer, Valgerði Hauksdóttur og Þórð Hall.

 

bottom of page